Almenningssamgöngur skiptast í tvo flokka, almenningssamgöngur á teinum (lest) og almenningssamgöngur á hjólum (strætó).  Það eru síðan til margar mismunandi gerðir lestarkerfa, hraðlestar, hefðbundnar járnbrautir og léttlestir til að nefna nokkur.  Strætó er líka margskonar, hefðbundnir vagnar, rafmagnskerfi, liðvagnar og svo hin stærri kerfi sem heita Bus Rapid Transit kerfi á ensku og hafa verið þýdd á íslensku sem Hraðvagnakerfi. Grunnhugsunin að baki öllum lestarkerfum og strætókerfum er sú sama, að veita almenningi góða þjónustu og koma fólki á milli staða.  Það hvernig kerfið lítur út (lest eða strætó) er hins vegar meiri tæknileg útfærsla, það vill hins vegar oft brenna við að ráðamenn og almenningur týna sér í umræðum um tæknilegu útfærsluna og gleyma grunnhugsuninni um þjónustukerfi.

Skipulag almenningssamgangna lítur ýmsum öðrum lögmálum en skipulag bílaumferðar, á meðan skipulag bílaumferðar miðar helst að því að koma bílum hratt á milli staða miðar skipulag almenningssamgangna helst að því að koma fólki oft á milli staða. Þegar kemur að skipulagi almenningssamgangna skiptir það meira máli hversu oft vagninn kemur en hversu hratt hann fer. Sömuleiðis er aðgengi gangandi og hjólandi fólks lykilatriði við skipulag almenningssamgangna.  Það ætti að segja sig sjálft að ef það er erfitt að komast að stoppistöð sem gangandi eða hjólandi er  líklegt að fáir nýti sér almenningssamgöngurnar, en það má þó víða finna dæmi á höfuðborgarsvæðinu í dag þar sem þessi mál hafa ekki verið hugsað til hlítar.